9. Nóvember 2019

Hrútafell

 • Mesta hæð

  1.069 m

 • Hækkun

  970 m

 • Áætluð gönguvegalengd

  17 km

 • Áætlaður göngutími

  5-6 klst. (uppgöngutími 3-3,5 klst.)

 • Erfiðleikastig

  3 / 5 - Fjallganga í meðallagi (þó í lengri kantinum)

 • Göngubyrjun

  Skammt frá Fáskrúðsfjarðargöngum sunnan megin (100m)

 • Verð

  4.000,-

Lýsing ferðar

Hrútafell er mjög tignarlegt fjall í botni Fáskrúðsfjarðar.  Meðfram fjallinu að norðanverðu er leiðin yfir Stuðlaheiði til Reyðarfjarðar en að sunnanverðu er Daladalur umkringdur glæsitindum.  Um Stuðlaheiði var oft farið með hesta að sumarlagi áður fyrr.  Umhverfis Hrútafell eru fjölmörg skemmtileg göngufjöll en þar eru einnig nokkur sem einungis örfáir hafa klifið og sum sem eru jafnvel enn óklifin, eftir því sem best er vitað.
Gönguleiðin á Hrútafell er frekar löng en góðan hluta leiðarinnar er línuveginum sem liggur upp í Brosaskarð fylgt sem auðveldar hana mikið.  Gott er að hefja gönguna nálægt gangnamunna Fáskrúðsfjarðarganga og fylgja eins og áður sagði línuveginum til að byrja með.  Þegar komið er aðeins upp í Stuðlaheiðina er sveigt upp í hlíð fjallsins og stefnt í skarð eitt sem er lægsti punktur á hryggnum sem liggur fram á fjallið.  Vaða eða stikla þarf Hrútá en hún er sjaldan mikill farartálmi sérstaklega yfir hásumarið.
Tveir flottir tindar kallaðir Syðri-Stuðull og Nyrðri-Stuðull eru sitthvoru megin við Stuðlaskarð.  Þeir eru báðir sagðir nákvæmlega 1.000 m háir.   Í norðri er síðan Brosaskarð en þar liggur raflínan frá Reyðarfirði  yfir í Fáskrúðsfjörð hæst í um 800 m hæð.  Austan við skarðið er „Hnúkurinn á milli skarðanna“ en hann er einmitt nefndur eftir Brosaskarði og Hrútadalsskarði (Hrútaskarði) sem er austan við hann.  Handan þess er svo Hallberutindur sem einnig er mjög flott fjall til göngu.
Þegar komið er upp á brúnina á Hrútafelli eftir nokkra hækkun er stefnan tekin í austur út eftir fjallinu.  Þá er gott að halda sig aðeins frá brúninni en hún getur verið laus.  Hryggurinn er ekki mjór og er ágætis gönguland undir fæti.  Ef göngumenn fá bjart og gott veður blasir við magnaður Austfjarðafjallgarðurinn allt frá Berufirði og norður til Norðfjarðar.  Útsýnið út Fáskrúðsfjörðinn er frábært af Hrútafellinu og minnir svolítið á útsýnið af Áreyjatindi í Reyðarfirði.  Möguleiki er að fara niður sunnan megin af fjallinu og koma þá niður í Daladalinn en sú leið er heldur brattari en leiðin frá Stuðlaheiði.  Þá þarf alltaf að koma tilbaka að skarðinu sem komið var upp í frá Stuðlaheiðinni áður en haldið er niður í Daladal.
Göngufoss eða Foss er flottur foss  í Hrútá skammt ofan við ármót Dalsár og Hrútár en á bakvið hann er smá hellisskúti sem auðvelt er að komast í og gaman er að skoða.

 • Það sem þarf meðferðis:

  Góðir gönguskór
  Hlýr fatnaður
  Skel (jakki og buxur)
  Bakpoki
  Nesti & drykkir
  Broddar
  GönguöxiWildboys