Skip to main content

9. mars 2019

Sandhólatindur

(Hákarlshaus)

  • Mesta hæð

    1.154 m

  • Hækkun

    1.120 m

  • Áætluð gönguvegalengd

    9-10 km

  • Áætlaður göngutími

    6-8 klst. (uppgöngutími 3-4 klst.)

  • Erfiðleikastig

    3 / 5 - Fjallganga í meðallagi

  • Göngubyrjun

    Frá Háubökkum (30m)

  • Verð

    2.500,-

Lýsing ferðar

Sandhólatindur er hæsta fjall við Seyðisfjörð og reyndar á allstóru svæði í kring.  Hann er einnig allra fjalla hæstur við Loðmundarfjörð en þeim megin kallast hann Hákarlshaus.  Sandhólatindur er í norð-austur af fjallinu Bjólfi handan Vestdals og frá Seyðisfirði er fínasta leið á fjallið.
Ekið er um 2 km út fyrir Seyðisfjarðarbæ norðanverðan að stað sem kallast Háubakkar.  Farið er eftir vegi 951 sem liggur út með ströndinni.  Við Háubakka er jeppaslóði sem liggur aðeins upp í mynni Vestdals en ágætt er að hefja gönguna frá aðalveginum.
Í byrjun er slóðanum fylgt upp í mynni Vestdals en ofan við fossa er göngubrú yfir Vestdalsá (N65°17.020 W014°01.440).  Frá brúnni er síðan stefnt upp í hlíðina sem er nokkuð brött á köflum og farið upp öxl á suð-vestanverðu fjallinu alla leið á toppinn.  Á hæsta punkti Sandhólatinds er lítil varða og staukur sem hýsir gestabók.  Í henni má sjá að þó nokkrir heimsækja þennan flotta stað ár hvert enda útsýnið af tindinum ekki slæmt.
Í norður sér yfir Bárðarstaðadal til Herfells og enn lengra má greina Beinageit og Dyrfjöll.  Í austur sér aðeins í Loðmundarfjörð og hið formfagra fjall Skæling sem stundum er kallað „kínverska hofið“.
Ef litið er til Seyðisfjarðar sjást  Strandartindur og Bjólfur standa vörð um bæinn afar tignarlegir og austar eru tindarnir Bægsli og Snjófjallstindur sem er ótrúlega líkur Snæfugli í Reyðarfirði.  Hafi göngufólk ekki séð nóg er upplagt að ganga yfir á Grýtukoll (1.052) sem er rétt austan við Sandhólatindinn.

  • Það sem þarf meðferðis:

    Góðir gönguskór
    Hlýr fatnaður
    Skel (jakki og buxur)
    Bakpoki
    Nesti & drykkir
    Broddar
    Gönguöxi