1. júní 2019

Tröllafjall

 • Mesta hæð

  1.153 m

 • Hækkun

  850 m

 • Áætluð gönguvegalengd

  9 km

 • Áætlaður göngutími

  6-7 klst. (uppgöngutími 3-4 klst.)

 • Erfiðleikastig

  3 / 5 - Fjallganga í meðallagi

 • Göngubyrjun

  Frá mynni Brúðardals (300m)

 • Verð

  2.500,-

Lýsing ferðar

Tröllafjall er sannarlega réttnefni á stóru og miklu fjalli sem rís innarlega í Reyðarfirði.   Það teygir sig til vesturs að Þórudal sem er næsti dalur austan við Skriðdal.  Á fjallinu eru nokkrir tindar en hér verður líst leið á þann hæsta sem kallast  Stórihnúkur.
Hægt er að komast að uppgöngustaðnum á fjallið bæði úr Reyðarfirði og af Héraði úr Skriðdal.  Þegar komið er úr Skriðdal er ekið eftir vegi F936 (Þórdalsheiði) inn að mynni Brúðardals en ekið inn Brúðardal frá Áreyjum eftir sama vegi þegar komið er frá Reyðarfirði.  Vegurinn um Þórdalsheiði er aðeins opinn yfir sumartímann og er aðeins fyrir jeppa.  Vegurinn úr Skriðdal að mynni Brúðardals er mun betri og hentar flestum bílum.
Gangan hefst í um 300 m hæð yfir sjó og er strax lagt á brattann en leiðin í heildina er alls ekki brött.  Farið er upp hrygg sem liggur í suð-austur og er nokkuð brattur til að byrja með en ofar er hallinn mjög viðráðanlegur alla leið á topp fjallsins.  Handan Þórudals er Haugafjall fjær og reisulegur Hallbjarnarstaðatindurinn nær og norðan við Brúðardal er Brúðardalsfjall.  Á þessu svæði er mjög stutt á milli fjalla sem flest eru um og yfir 1.000 m á hæð.  Göngulandið er hið fínasta en möguleiki er á að einhverjar fannir séu fram á sumarið allra efst.
Af toppi Tröllafjalls er afar víðsýnt og um að gera að gefa sér góðan tíma til að njóta þess.  Mjög flott er að sjá tinda við Berufjörð s.s. Búlandstind, Smátindafjall og Slött í suð-austur átt.  Einnig sést vel til allra helstu fjallatoppa við norðanverða Austfirði.  Í norðri eru risarnir Skúmhöttur og Kistufell mest áberandi en í góðu skyggni má sjá norður eftir öllum fjörðunum.  Mælt er með sömu leið til baka niður í Brúðardal.
Fyrir þá sem vilja fara meira krefjandi leið á Tröllafjall er hægt að fara á Miðaftantind sem er nyrðsti hluti fjallsins og er þá farið af Kollfelli upp brattann hrygg á tindinn úr Reyðarfirði.

 • Það sem þarf meðferðis:

  Góðir gönguskór
  Hlýr fatnaður
  Skel (jakki og buxur)
  Bakpoki
  Nesti & drykkir
  Broddar
  GönguöxiWildboys