15-17. júlí 2019

Askja - Herðubreið - Kverkfjöll

 • Mesta hæð

  1.800 m (Kverkfjöll)

 • Hækkun

  Um 1.200 m

 • Áætluð gönguvegalengd

  18 km

 • Áætlaður göngutími

  11-12 klst.

 • Erfiðleikastig

  4/ 5 - Frekar krefjandi ganga

 • Göngubyrjun

  Frá bílaplani við íshellinn í Kverkfjöllum (800 m)

 • Verð

  Almennt verð 44.000,-
  FÍ verð 35.000,-

Lýsing ferðar

Framundan er þriggja daga ferð um stórkostlegt svæði norðan Vatnajökuls í samvinnu Vesens og vergangs og Wild boys. Fyrsta daginn verður farið á Herðubreið, drottningu íslenskra fjalla og einn stærsta móbergsstapa á Íslandi. Við gistum svo í Dreka við Öskju og verjum öðrum deginum við göngu á Öskjusvæðinu, en færum okkur svo síðdegis í Sigurðarskála við Kverkfjöll og gistum þar. Eldsnemma morguninn eftir er farið af stað í gönguna á Kverkfjöll.
Þátttakendur koma á eigin vegum að Möðrudal á Fjöllum, safnast saman og ekur þaðan í samfloti á eigin jeppum.
Fjallabroddar (mannbroddar), ísöxi, hjálmur og göngubelti eru nauðsynlegur búnaður.

15. júlí
Komið er saman eldsnemma morguns við Möðrudal á Fjöllum, sameinast í jeppana og keyrt sem leið liggur að rótum Herðubreiðar. Þaðan er gengið upp á Herðubreið í skriðum og um klettabelti. Á þessari leið er nauðsynlegt að vera með hjálm. Gera má ráð fyrir að gangan taki allt að 6 klst og hækkun er ca 1000 m. Að lokinni göngu keyrum við að skálanum Dreka í Dyngjufjöllum og gistum þar. Hægt er að fara í kvöldgöngu í Drekagil.

16. júlí
Þennan dag keyrum við fyrst að bílastæðinu við Öskju og göngum á fallegan útsýnisstað þar sem sést vel yfir Öskjuvatnið og berghlaupið sem varð árið 2014. Skoðum Víti í leiðinni. Keyrum svo að Sigurðarskála í Kverkfjöllum og gistum um nóttina. Farið verður snemma í háttinn.

17. júlí
Tökum daginn mjög snemma og förum af stað um kl. 6 um morguninn. Kíkjum á íshellinn og förum svo upp Löngufönn og á hæsta tind Kverkfjalla vestari og áfram að skála Jörfa við Gengissig. Hugsanlega komumst við líka í Hveradal ef aðstæður eru góðar. Útsýnið er stórkostlegt. Við komum niður fyrir kvöldmatarleyti og þeir sem vilja vera lengur geta athugað með skálapláss eða hægt að keyra til byggða. Leiðin öll er um 18-20 km og hækkun um 1200 m. Gengið er í línu eftir að komið er í 1600 m hæð. Því þurfa allir að vera með göngubelti, karabínu, fjallabrodda og ísöxi.

Verð í ferðina: 44.000 í skála/35.000 í skála félagi í FÍ. Ef þið eruð í tjaldi þá er kostnaður kr 30.000 á mann.
Lágmarks fjöldi er 18 en hámarks fjöldi er 30

Innifalið: Leiðsögn og skálagisting í tvær nætur eða tjaldsvæði.

Skráning fer fram á vesen.felog.is. Byrja þarf á því að skrá sig sem forráðamann og svo sem iðkanda og svo er hægt að velja ferðina. Hægt er að greiða með greiðsluseðli eða greiðslukorti og mögulegt að skipta greiðslum í þrennt.
Ef veður eða aðstæður eru þannig þá getur verið að það þurfi að breyta út frá áætlun, en þá eru farnar aðrar leiðir í staðinn.
Staðfestingargjald greiðist við pöntun eins og segir í lýsingu viðkomandi ferðar. Aldrei er hægt að fá staðfestingargjald endurgreitt en hægt er að framselja bókunina til nýs farþega sem kemur inn og tekur sætið og fylgir þá staðfestingargjaldið með. Hluti af verði ferðarinnar eða kr. 8.000 eru ígildi staðfestingargjalds.

 • Það sem þarf meðferðis:

  Góðir gönguskór
  Hlýr fatnaður
  Skel (jakki og buxur)
  Bakpoki
  Nesti & drykkir
  Jöklabroddar
  Gönguöxi
  Klifurbelti (göngubelti)
  Læst karabína
  Hjálmur (Herðubreið)

Myndir úr Öskju - Herðubreið - Kverkfjöllum


Wildboys